Átti von á minni lækkun

Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningar Íslandsbanka.
Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningar Íslandsbanka.

Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningar Íslandsbanka, segist hafa átt von á talsverðri lækkun vísitölu neysluverðs, en ekki eins mikilli og raun ber vitni.

„Við áttum að vísu von á talsverðri lækkun og vorum búin að spá 0,7% lækkun. Við höfðum tekið inn í þetta útsöluáhrifin og útvarpsgjöldin og það gekk allt eftir. En það sem kom okkur á óvart var húsnæðisliðurinn. Það er auðvitað mjög jákvætt að skekkjan sé í þessa átt,“ sagði Ingólfur í samtali við mbl.is.

Hann segir verðbólguna vera „mjög skaplega“ en hún er nú 1,8% og er undir verðbólguspá Seðlabanka Íslands. „Lækkun á vísitölunni á milli mánaða er auðvitað kærkomin fyrir skuldug heimili í landinu.“

Ingólfur segir að þetta ætti að hvetja til lækkunar stýrivaxta.  „En þar togast tvö öfl á. Annars vegar þessi lækkun vísitölunnar sem ætti að ýta undir frekari vaxtalækkun. En hins vegar hefur gengi krónunnar verið að gefa aðeins eftir á markaði undanfarið og Seðlabankinn horfir fyrst og fremst á gengið, markmiðið er að halda því stöðugu. Þessi hreyfing á genginu gæti því dregið úr vilja hans til að lækka vexti“ segir Ingólfur.

Hann segist telja að vextir munu lækka. „En það verður öllu minni lækkun en við höfðum reiknað með. Við höfum verið með 50 punkta lækkun, en hún gæti hugsanlega farið í 25 punkta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert