Ekki er talin ástæða til að herða þær reglur sem eru í gildi um samskipti lækna og fulltrúa lyfjaiðnaðarins. Velferðarráðherra telur aðalatriðið að þær reglur séu virtar, líkt og gildir um allar reglur. Þetta kemur fram í svari hans við fyrirspurn Margrétar Tryggvadóttur, þingmanns Hreyfingarinnar.
Margrét spurði m.a. út í hvaða reglur gildi um samskipti lækna og fulltrúa lyfjaiðnaðarins og fékk þau svör að ákvæði í lyfjalögum gildi um auglýsingar og kynningar á lyfjum. Ítarlegri ákvæði um auglýsingar og kynningar lyfja eru svo í reglugerð. Segir og, að ákvæðin séu í samræmi við þær reglur sem gildi á Evrópska efnahagssvæðinu.
Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, segir í svari sínu að kynningar á lyfjum geti verið nauðsynlegur þáttur í þróun lyfjameðferðar og geti leitt til umbóta í meðferð sjúklinga. Hins vegar geti slíkar kynningar haft áhrif á heilbrigðisþjónustu, starfsemi og rekstur heilbrigðisstofnana og því er nauðsynlegt að um þær gildi ákveðnar reglur og þær virtar. Lyfjastofnun hefur eftirlit með auglýsingum og kynningum lyfja.
Að endingu spurði Margrét hvort boðsferðir lyfjafyrirtækja á ráðstefnur erlendis og fyrirlestrar sem þau standa fyrir hér á landi séu hluti af formlegri endurmenntun lækna. Velferðarráðherra segir svo ekki vera.