„Bifreiðagjöldin eru að hækka um allt að 31% á flutningabíla hjá okkur. Dæmi um áhrifin er að bifreiðagjöld á einn flutningabílanna okkar fara úr 112.000 krónum í tæpar 150.000 krónur á ári,“ segir Jörundur Jörundsson, framkvæmdastjóri hjá Samskipum innanlands, um áhrif breyttra bifreiðagjalda á reksturinn.
„Þetta er ef til vill ekki stór krónutala hjá stóru fyrirtæki. Það safnast hins vegar saman þegar bílarnir eru margir. Við erum með um hundrað bíla og samtals þýðir hækkunin því milljónir króna í aukin útgjöld á ári. Þetta er viðbót á vogarskálarnar og bætist við þær hækkanir sem orðið hafa á eldsneytisverðinu frá áramótum. Samanlagður akstur í landflutningakerfinu er ábyggilega á milli 15 og 20 milljónir kílómetra í heild yfir árið.Flutningabílar eyða upp undir 50 og 60 lítrum á hundraðið. Sú hækkun sem hefur orðið í bifreiðagjöldum og í eldsneytiskostnaði að undanförnu, auk hugsanlegra veggjalda, hlýtur því fyrr eða síðar fara út í verðlagið. Það segir sig sjálft,“ segir Jörundur og svarar því aðspurður til að landflutningar muni að óbreyttu verða dýrari í ár en í fyrra.