Hætta öllum þreifingum við SA

Frá fundi ASÍ og SA.
Frá fundi ASÍ og SA. mbl.is/Árni Sæberg

Miðstjórn ASÍ lýsir yfir megnri óánægju með þá stöðu sem upp er komin í yfirstandandi kjarasamningsviðræðum. Hefur samninganefnd ASÍ ákveðið að hætta öllum þreifingum við SA um gerð kjarasamnings. ASÍ segir að það muni ekki láta atvinnurekendur taka viðræðurnar í gíslingu til að verja sérhagsmuni útgerðamanna.

ASÍ segir að samningsaðilar hafi á undanförnum vikum kannað forsendur fyrir því að samið verði til allt að þriggja ára á grundvelli samræmdrar launastefnu og aðgerðaáætlunar í efnahags-, atvinnu- og félagsmálum.

„Allt benti til þess að hægt væri að ná breiðri samstöðu um slíka leið. Nú hafa Samtök atvinnulífsins lýst því yfir að samtökin muni taka efni slíks samnings og nota sem þvingunaraðgerð við stjórnvöld  til að knýja fram að væntanlegar breytingar á fiskveiðistjórnarlöggjöfinni verði þóknanlegar LÍÚ,“ segir í ályktun frá miðstjórn frá ASÍ.

„Þetta er með öllu óásættanlegt. Alþýðusambandið getur ekki og mun ekki láta atvinnurekendur taka kjarasamningaviðræður í gíslingu til að verja sérhagsmuni útgerðarmanna. Því hefur samninganefnd ASÍ ákveðið að hætta öllum þreifingum við Samtök atvinnulífsins um gerð kjarasamnings á fyrrgreindum forsendum,“ segir ASÍ ennfremur.

Þá hvetur miðstjórn ASÍ aðildarfélög sín til að hraða vinnu við gerð kjarasamninga á grundvelli þeirrar kröfugerðar sem þau hafi lagt fram við atvinnurekendur. Jafnframt áréttar ASÍ kröfuna um að velferðarráðherra leggi þegar fram neysluviðmið sem hann hefur boðað.

„Miðstjórn ASÍ átelur Samtök atvinnulífsins harðlega fyrir að láta þrönga sérhagsmuni fámenns hóps útgerðarmanna ráða afstöðu sinni, í stað þess að horfa til hagsmuna þorra fyrirtækja og alls launafólks.

Að sama skapi er það mat miðstjórnar ASÍ að það sé algerlega óásættanlegt að atvinnurekendur dragi úr hömlu að ljúka kjarasamningum. Í ljósi þeirra miklu óvissu sem ríkir í íslensku efnahags- og atvinnulífi telur miðstjórnin flest rök hníga að því að gera kjarasamninga til skamms tíma,“ segir í tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka