Krefst þess að trúnaði verði aflétt

Höskuldur Þórhallsson.
Höskuldur Þórhallsson.

Á fundi fjárlaganefndar Alþingis í morgun var fjallað um hvort aflétta eigi trúnaði af  samtali seðlabankstjóra Íslands og Englands frá árinu 2008.  Icesave-frumvarpið var afgreitt úr nefndinni í morgun.

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sem situr í fjárlaganefnd Alþingis segir enn vera ágreining innan nefndarinnar um þetta.

„Á fundinum kom fram mikil óánægja með að formaður og varaformaður skyldu hafa tjáð sig um það sem áttu að vera trúnaðarupplýsingar. Það var farið yfir það. En ég gat ekki merkt að meirihlutinn vildi aflétta þessum trúnaði og mér þykir það miður,“ sagði Höskuldur í samtali við mbl.is.

„Það á allt að vera uppi á borðum. Þarna eru upplýsingar sem geta skipt sköpum um afstöðu manna til Icesave málsins og þær eiga að liggja frammi. Ég held það sé best fyrir framgang málsins og hagsmuni Íslands að þessum trúnaði verði aflétt. Ég tel ekki að það brjóti í bága við nein lög. Og jafnvel þó svo væri, þá eru hagsmunirnir í þessu máli það miklir, að nauðsyn gæti brotið lög ef einhver telur svo vera.“

Icesave málið er nú farið út úr fjárlaganefnd Alþingis. Að sögn Höskuldar var það gert í ósætti, sem honum þykir miður.

„Það liggur fyrir að álit efnahags -og skattanefndar og viðskiptanefndar hafa ekki borist nefndinni. Mér finnst þetta vera vanvirðing við þær nefndir, að verið sé að gefa í skyn að álit úr þeirri áttinni skipti ekki máli.“

En hvers vegna var ekki beðið eftir þessu áliti? „Það eru engin haldbær rök fyrir því,“ segir Höskuldur.

„Ég mun halda áfram að  krefjast þess að trúnaði verði aflétt og að Alþingi beiti sér fyrir því en meirihlutinn hefur úrslitavald. Ef hann vill leyna þessum upplýsingum, þá er það hans mál.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert