Starfsmenn í fiskimjölsverksmiðjum í starfsgreinasambandsfélögunum Afli á Austurlandi og Drífanda í Vestmannaeyjum samþykktu verkfallsboðun í fiskimjölsverksmiðjum í leynilegri atkvæðagreiðslu. Verkfallið á að hefjast 7. febrúar. Já sögðu 61 eða 83,5%, 5 sögðu nei eða 6,8%. 7 seðlar voru auðir eða ógildir.
75 starfsmenn í loðnubræðslunum voru á kjörskrá en þær eru á Vopnafirði, Seyðisfirði, Norðfirði, Eskifirði, Fáskrúðsfirði, Hornafirði og tvær bræðslur í Vestmannaeyjum.
73 greiddu atkvæði um verkfallsboðunina. Talning atkvæðanna fór fram í höfuðstöðvum Starfsgreinasambandsins í morgun.
Samkvæmt upplýsingum Starfsgreinasambandsins hefst verkfallið 7. febrúar og stendur í þrjá daga. Það verður endurtekið 14. febrúar, einnig í þrjá daga og svo ótilgreint frá og með 21. febrúar hafi samningar þá enn ekki tekist.