Skotveiðimaðurinn Hermann Hermannsson á Ísafirði fékk óvenulega bráð í gær þegar hann skaut vogmær. „Við skotveiðifélagarnir höfum verið í keppni um skrýtnustu bráðina og þetta verður að ég held seint toppað,“ segir Hermann við vefinn bb.is.
„Við fórum nokkrir saman á bát inn í Ísafjarðardjúp að eltast við skarf. Síðdegis þegar farið var að dimma vorum við staddir norður af Vigur þar sem við dóluðum okkur og drukkum kaffi. Við vorum með höfuðluktir og skyndilega sé eitthvað glitta í ljósinu á haffletinum. Ég dreg upp hólkinn og skýt en þegar við förum að athuga hvað var þarna á ferðinni kom þessi furðufiskur í ljós,“ segir Hermann við bb.is.
Furðufiskurinn sem Hermann skaut er svokölluð vogmær sem er afar sérkennilegur fiskur í útliti. „Það undarlega við þetta er að fiskurinn stakk höfðinu upp úr sjónum þegar ég skaut, en hann var engu að síður alveg heill eftir skotið,“ segir Hermann.