Ian Gatt, framkvæmdastjóri samtaka skoskra uppsjávarfiskimanna krafðist þess í gær á fundi sjávarútvegsnefndar Evrópuþingsins, að Íslendingar verði beittir frekari refsiaðgerðum fyrir að gefa einhliða út makrílveiðikvóta.
Fram kemur í skoska blaðinu Scotsman í dag, að Gatt hafi komið fyrir fiskveiðinefndina fyrir hönd Europeche, samtaka evrópskra fiskimanna.
Sagði Gatt að ákvörðun Íslendinga um makrílkvótann ógnaði makrílstofninum og græfi undan lífsviðurværi evrópskra fiskveiðisamfélaga.
Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins, lýsti því yfir á fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar um miðjan janúar, að Evrópusambandið hefði ákveðið með formlegum hætti að leggja löndunarbann á íslensk skip með makrílafla.
Blaðafulltrúi Damanaki sagði við Morgunblaðið í síðustu viku, að lögfræðingar Evrópusambandsins kanni nú svigrúm sambandsins til aðgerða
gegn íslenskum stjórnvöldum í makríldeilunni og sé niðurstöðu að vænta á
næstunni.