Vonar að ekki komi til verkfalls

Vestmannaeyjar.
Vestmannaeyjar. mbl.is/GSH

„Við erum náttúrulega ekki að þessu til að skemma verðmæti, heldur til þess að talað verði við okkur,“ segir Arnar Hjaltalín, formaður Stéttarfélagsins Drífanda. Félagsmenn hefur samþykkt að fara í verkfall í næsta mánuði, en Arnar segist vongóður um að ekki þurfi að koma til þess.

Arnar segir það að Samtök atvinnulífsins ætli að láta reyna á lögmæti verkfallsboðunarinnar fyrir félagsdómi ekki hafa komið sér óvart. „Það verður bara útkljáð þar,“ segir hann.

Líkt og greint hefur verið frá samþykktu starfsmenn í fiskimjölsverksmiðjum í starfsgreinasambandsfélögunum Afli á Austurlandi og Drífanda í Vestmannaeyjum að verkfall skuli hefjast þann 7. febrúar næstkomandi.

Arnar segist vongóður um að ekki komi til verkfalls. „Það er nú einu sinni okkar hlutverk, bæði hjá Samtökum atvinnulífsins og hjá okkur, að semja. Þannig að við erum vongóð um að þetta leysist.“

Vilhjálmur Egilsson sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að Samtökin hygðust ekki fara „neina verðbólguleið,“ og vísaði þar til launakrafna viðsemjenda sinna. Arnar gerir lítið úr þessu orðalagi Vilhjálms og bendir á að kröfurnar hljóði upp á það að félagsmenn verði með frá rúmum 200 og upp í tæplega 300 þúsund krónur á mánuði. „Það er allt og sumt,“ segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert