Íbúðalánasjóður (ÍLS) og stóru viðskiptabankarnir þrír leystu til sín alls 1.641 fasteign á síðasta ári. Samtals eiga þessar stofnanir nú 1.951 fasteign en þar af teljast 1.518 vera íbúðarhúsnæði sem allt er ýmist til sölu eða í útleigu.
Eiga þessir aðilar 234 eignir sem teljast til atvinnuhúsnæðis. Fasteignasafn bankanna og Íbúðalánasjóðs hefur því vaxið mjög síðustu misserin en í lok árs 2009 áttu þeir 585 íbúðarhús.
Í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að allar fasteignir sem bankarnir eignast fara beint í söluferli og öll fasteignaviðskipti fara fram í gegnum fasteignasölur.
Fólki sem missir heimili sín er þó gefinn aðlögunartími til þess að gera ráðstafanir og leigja húsnæðið þar til það hefur verið tæmt. Fólki sem er með börn í skóla er þannig t.a.m. gefið tækifæri til að leyfa börnunum að klára skólaönnina áður en það flytur út.