Ákvörðun Hæstaréttar kom á óvart

Ögmundur Jónasson færði þinginu skýrslu um ógildingu stjórnlagaþingskosninganna.
Ögmundur Jónasson færði þinginu skýrslu um ógildingu stjórnlagaþingskosninganna. mbl.is/Ernir

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, sagði á Alþingi í dag að það hefði  komið sér á óvart, að í ljósi ríkra almannahagsmuna skuli Hæstiréttur hafa komist að þeirri niðurstöðu að ógilda beri kosningu til stjórnlagaþings.

Sagði Ögmundur að beina þurfi sjónum að þremur aðilum í umræðu um málið: Hæstarétti, löggjafanum og þeim sem sáu um kosninguna. 

Ögmundur sagði að niðurstöðu Hæstaréttar verði ekki breytt og niðurstöðu hans verði hlítt. „Það þýðir ekki að Hæstiréttur sé hafinn yfir gagnrýni enda fer nú fer fram eðlileg umræða í þjóðfélaginu í hópi lögspekinga og almennings og á Alþingi um niðurstöðu Hæstaréttar og lögin sem hann byggir niðurstöðu sína á," sagði Ögmundur. 

Ögmundur sagði, að beina yrði einnig sjónum að löggjafanum, Alþingi. Lögin um stjórnlagaþing hefðu verið undirbúin í forsætisráðuneytinu og síðan farið  til umfjöllunar í þinginu og  til allsherjarnefndar þingsins. Loks hafi frumvarpið verið samþykkt með breytingum, með einu mótatkvæði. Sjálfstæðisflokkurinn hefði setið hjá, ekki vegna gagnrýni á lögin sem slík heldur það fyrirkomulag, sem verið var að lögleiða.

Loks sagði Ögmundur að beina þyrfti sjónum að framkvæmdaaðilum, þeim sem sáu um kosningarnar en það hefðu einkum verið dómsmála- og mannréttindaráðuneytið, landskjörstjórn og sveitarfélög.

„Allt á að þola ljósið og ég frábið mér allar tilraunir til þöggunar," sagði Ögmundur. Sagði hann mjög mikilvægt að þetta mikilvæga mál fái ítarlega skoðun.

Bjarni Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði að Ögmundur hefði í ræðu sinni reynt að beina sjónum fólks frá þeim, sem bæru hina pólitísku ábyrgð á málinu.  Hann hefði reynt að halda því fram að Hæstiréttur hefði brugðist, sveitarstjórnirnar og allsherjarnefnd.

„Þetta skyldi þó ekki snúast um pólitík," sagði Ögmundur þá. 

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, sagði að kostnaður við stjórnlagaþingið og undirbúning þess væri orðinn rúmur hálfur milljarður króna.  Ögmundur sagði hins vegar, að kostnaður vegna stjórnlagaþingsins væri 281.696.000 krónur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert