Bæjarstjóri segir Björk fara með ósannindi

Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar.
Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar. mbl.is/Steinar

Bæjarstjóri og formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar segja aðstandendur áskorunar á orkuaudlindir.is fara með ósannindi um mikilvæga þætti, er þau fullyrða um aðkomu sveitarfélagsins að málefnum HS Orku, í dreifibréfi sem þau hafi sent frá sér í dag.

Í tilkynningu frá Árna Sigfússyni, bæjarstjóra Reykjanesbæjar, og Böðvari Jónssyni, formanni bæjarráðs Reykjanesbæjar, kemur fram að fullyrt sé í dreifbréfinu að „tekjur Reykjanesbæjar af því að leigja HS Orku afnot af auðlindinni nægja ekki fyrir afborgunum af lánum sem bæjarfélagið tók til þess að kaupa aðra eigendur út.“

Árni og Böðvar segja að þetta sé með öllu ósatt. „Reykjanesbær keypti engan út í viðskiptum með HS Orku og því er ekki um neinar afborganir af lánum að ræða vegna þessa,“ segja þeir.

Þá sé gefið í skyn að afborganir af skuldabréfum sem gefin hafi verið út gefi af sér 1,53% vexti. Þetta séu einnig ósannindi í tilviki Reykjanesbæjar. Í því skuldabréfi sem Geysir Green Energy greiddi sem hluta af greiðslum fyrir eignarhlut Reykjanesbæjar í HS Orku hafi verið greiddir vextir 4,3% á síðasta ári, þ.e. 272 milljónir kr. af  6,3 milljarða kr. bréfi.  „Athugið; þetta eru tekjur til Reykjanesbæjar, ekki útgjöld,“ segja Árni og Böðvar.

„Það er mjög miður að Björk Guðmundsdóttir, í ljóma frægðar sinnar, láti slíka útreikninga og fullyrðingar frá sér um allan heim,“ segir ennfremur.

Að auki hafi ítrekað verið reynt að halda því fram af henni og félögum hennar að auðlindin undir virkjunum HS Orku sé eign HS Orku. Þetta hafi líka verið leiðrétt og sé þá reynt að gera lítið úr þeirri staðreynd, með því að vísa til að 65 ára leigutími gegn auðlindagjaldi til bæjarfélagsins og ströngum ríkisheimildum og ríkiseftirliti jafngildi eign. Þó hafi ítrekað komið fram að bæði HS Orka sem leigjandi auðlindar og Reykjanesbær sem eigandi auðlindar hafi lýst yfir vilja til að skoða styttingu á þeim tíma. Ennfremur hafi Reykjanesbær boðið ríkinu að kaupa auðlindina svo hún verði í þjóðareign.

„Forsvarmenn Reykjanesbæjar búast engan vegin við að þessi hópur sé reiðubúinn að leiðrétta þessar röngu fullyrðingar eða biðjast afsökunar á þeim og því er þessum leiðréttingum komið á framfæri við fjölmiðla. Lítið sveitarfélag á Íslandi á erfitt með að bera hönd fyrir höfuð sér þegar heimsfrægur söngvari kemur röngum upplýsingum um allan heim. Þó er treyst á að Íslendingar viti hið sanna í málinu,“ segir að lokum.

Björk Guðmundsdóttir, Oddný Eir Ævarsdóttir og Jón Þórisson, aðstendur áskoruninnar …
Björk Guðmundsdóttir, Oddný Eir Ævarsdóttir og Jón Þórisson, aðstendur áskoruninnar á orkuaudlindir.is, afhentu forsætisráðherra tæplega 50.000 undirskriftir nýverið. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert