Róbert Marshall, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður allsherjarnefndar Alþingis, sagðist vilja biðja þjóðina afsökunar á þeim mistökum, sem orðið hefðu við setningu laga um stjórnlagaþings og kosningar til þess.
„Það breytir ekki því að ábyrgðin er okkar, stjórnarmeirihlutans, þeirra sem samþykktu lögin, þeirra fjögurra flokka sem komu að því að setja þessa löggjöf í gegn. Ég fyrir mitt leyti finn til ábyrgðar yfir þeim fjármunum sem fóru í súginn í þessum efnum og mér finnst ég skulda þjóðinni afsökunarbeiðni og geri það hér með, biðst afsökunar á mínum þætti í þessu máli. En ég er líka tilbúinn til að mæta kjósendum mínum með þetta mál á ferilskránni. Ég er tilbúinn til að axla mína ábyrgð í frjálsum og opnum kosningum vitandi hvaða markmið liggja hér að baki og hversu risavaxið það verkefni er sem framundan er í þessum efnum," sagði Róbert.
Verið er að ræða um skýrslu Ögmundar Jónassonar, innanríkisráðherra, um framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings. Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri grænna, sagðist einnig biðjast afsökunar á þætti nefndarinnar í málinu en Árni Þór sat í nefndinni þegar hún fjallaði um lagafrumvarpið um stjórnlagaþing.