„Ég var aldrei um það spurð hvort það ætti að upplýsa þingmenn um þetta. Hvort þetta ætti að ræðast í forsætisnefnd eða við hverja þetta mál ætti að ræða. Einu afskipti mín snerta stjórnsýsluna, eins og ég hef nefnt, og á þeim málum var tekið þar,“ sagði forsætisráðherra sem var spurður um aðkomu sína tölvumálinu á Alþingi.
„Það hefur nú ekki verið talið eðlilegt að forsætisráðherra sé að hafa afskipti af innri málum þingsins, og yfirleitt gerðar athugasemdir við það ef svo sé. Þetta var ákvörðun forseta að gera þetta með þeim hætti,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir á Alþingi.
Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi að það hefði verið fjallað um tölvufundinn af mikilli léttúð á þinginu.
„Það kom fram hjá hæstvirtum forseta þingsins að forsætisráðherra hefði verið með í þeirri ákvörðun að leyna þingmenn þessum máli. Að gefa þingmönnum ekki upplýsingar um þetta alvarlega mál. Og ég vil bera það undir hæstvirtan forsætisráðherra, hvort að hún hafi verið með í þessari ákvörðun, hvort að henni finnist málið hafa verið meðhöndlað eðlilega,“ spurði Jón.
„Eina aðkoma mín að þessu máli, sem háttvirtur þingmaður nefnir, er sú að forsætisráðherra [forseti þingsins] greindi mér frá því á sínum tíma að þessi tölva hefði fundist, þessi umrædda tölva. Ástæðan fyrir því að hún greindi mér frá því var það að ég sem yfirmaður stjórnsýslunnar yrði að vita um slíkt svo að þetta yrði skoðað á vegum stjórnsýslunnar. Það var gert,“ sagði Jóhanna.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi látið yfirmenn forsætisráðuneytisins vita í framhaldinu og farið hafi verið yfir allt tölvukerfi stjórnsýslunnar. Ekkert hafi fundist þar að. „Það er eina aðkoma mín að þessu máli,“ sagði Jóhanna.