Eykur líkur á greiðsluþroti ríkisins

Fjármálaráðuneytið.
Fjármálaráðuneytið.

Minni hagvöxtur en búist var við, meðal annars vegna tafa á stóriðjuuppbyggingu, hefur aukið líkurnar á greiðsluþroti íslenska ríkisins nema til komi endurskipulagning á skuldum þess með niðurfærslum.

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, telur að vítahringur niðursveiflu sé hafinn.

Þannig eigi ríkið aðeins þann kost að hækka skatta og skera niður í opinberri þjónustu, enda sé útlit fyrir að það geti ekki sótt auknar skatttekjur í aukin umsvif í hagkerfinu. Því sé hafið tímabil stöðnunar þar sem neikvæður vítahringur skuldabyrði, skattheimtu og niðurskurðar stuðli að langvarandi stöðnun í íslensku hagkerfi. „Þetta þýðir hærri skatta, meiri niðurskurð eða greiðslufall [íslenska ríkisins]," segir Þór og á við þá möguleika sem ríkið á í stöðunni nema það kjósi að horfast í augu við vandann og semja um endurskipulagningu ríkisskulda.

Spurður um þau ummæli Lilju Mósesdóttur, þingmanns VG, í Kastljóssviðtali fyrir áramót að til standi að segja upp 1.800 opinberum starfsmönnum á næstunni segir Þór að út frá fyrirliggjandi forsendum sé ljóst að talan verði há. Þessar uppsagnir muni slá á einkaneyslu.

„Ég held að það sé ekki hægt að ganga lengra í skattheimtu. Menn eru komnir yfir markið. Það er búið að höggva svo mikið í ráðstöfunartekjur heimila að hér verður samdráttur í neyslu og verðhjöðnun. Ég tel að við séum komin á það stig. Ef þessar hagvaxtartölur eru réttar mun þetta skeið vara þar til róttæk uppstokkun verður á skuldum heimilanna," segir Þór Saari.

Þór Saari
Þór Saari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert