Fríðindi tekin af atvinnulausum í Kópavogi

Kópavogur.
Kópavogur. Rax / Ragnar Axelsson

Atvinnulausir í Kópavogi fá ekki lengur frí bókasafns- og líkamsræktarkort eins og þeim hefur gefist kostur á að nýta sér. Bæjarráði var ekki kunnugt um málið og hefur óskað eftir fundi með félagsmálastjóra.

Málið var tekið fyrir á bæjarráðsfundi í dag. Atvinnuráðgjafar mættu á fundinn og gerðu grein fyrir upplýsingum um atvinnuleysi. Í kjölfarið lét Una María Óskarsdóttir, varafulltrúi Framsóknarflokks í bæjarráði, þá bóka, að henni þætti miður að ákvörðun hefur verið tekin um að afnema áðurnefnd fríðindi fyrir atvinnulausa í bænum.  

„Fram hefur komið að atvinnufulltrúar Kópavogs segja að mikil ánægja og góð nýting hafi verið  með þessa góðu þjónustu. Því er augljóst að þessi hvatning til líkamsræktar og annarrar afþreyingar skipti miklu máli til þess að létta undir með atvinnulausum,“ segir í bókun Unu Maríu og einnig hvatti hún bæjaryfirvöld til að endurskoða ákvörðunina og búa betur að atvinnulausum.

Kom þá fram að bæjaryfirvöldum var ekki kunnugt um að ákvörðun um afnám fríðinda fyrir atvinnulausa hefði verið tekin, og verður óskað eftir því að félagsmálastjóri mæti á næsta fund ráðsins vegna málsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert