Kosningar kosta 100 tonna þorskkvóta

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Ernir

„Lýðræðið kostar," sagði Ólafur Þór Gunnarsson, þingmaður Vinstri grænna á Alþingi í dag. Sagði hann að þær rúmu 200 milljónir króna, sem kostar að halda nýjar kosningar vegna stjórnlagaþings, séu vissulega miklir peningar en í samhengi við mikilvægið sé ekki um miklar fjárhæðir að ræða. Umræða stendur enn á Alþingi um framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, sem Hæstiréttur hefur ógilt. 

„Það kostar um 100 tonna þorskkvóta að endurtaka kosningarnar. Það eru öll ósköpin," sagði Ólafur. „100 tonna þorskkvóti er vissulega mikið fyrir litlar útgerðir en fyrir heilt samfélag sem byggir tilveru sína á nýtingu auðlinda er það ekki mikið," sagði hann og hvatti til þess að nýjar kosningar fari fram um stjórnlagaþing. 

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði hins vegar að málið snérist um 500 milljóna klúður, um peninga sem bættu ekki framtíð skattgreiðenda.  Sagðist hún mótmæla þeim orðum, sem fallið hefðu í umræðunni að engir hlutir væru brýnni en stjórnlagaþing.

„Ég held að konunni frá Selfossi, sem eignaðist barnið sitt næstum því í sjúkrabílnum en rétt náði á sjúkrahúsið á Akranesi vegna þess að það var búið að loka skurðstofunni á Selfossi og Landspítalinn var fullur, þætti það brýnna að halda skurðstofunni á Selfossi opinni," sagði Ragnheiður Elín. Hún sagði að ekki þyrfti að fara þessa leið til að breyta stjórnarskránni.

Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði að tveir kostir virðist vera í stöðunni. Annað hvort velji Alþingi þau 25, sem kosin voru á stjórnlagaþing, í sérstaka nefnd sem leggi fram tillögur um breytingar á stjórnarskránni, eða að kosið verði aftur og bætt úr ágöllunum á fyrri kosningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert