Málið snýst um forsjá barnsins

Jóel Færseth Einarsson.
Jóel Færseth Einarsson. Mynd/Helga Sveinsdóttir

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, sagði á Alþingi að viðræður stæðu yfir um við indversk stjórnvöld með það að markmiði að upplýsa hver færi með forsjá drengs, sem indversk staðgöngumóðir fæddi fyrir íslensk hjón í nóvember.  

Sigurður Kári Kristinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, spurði Ögmund á þinginu hvers vegna ekki væri búið að gefa út vegabréf fyrir Jóel Færseth Einarsson, sem Alþingi veitti íslenskan ríkisborgararétt með lögum í desember.

Ögmundur sagði að aldrei hefði staðið á innanríkisráðuneytinu og stofnunum þess að greiða götu þessarar fjölskyldu. Gefið hefði verið út ríkisfangsbréf fyrir drenginn og hann skráður í þjóðskrá. Málið snúist um það hver fari með forsjá drengsins og geti tekið við þessum gögnum. Með þessu sé verið að tryggja að ekki rísi deilur um málið þegar drengurinn fer frá Indlandi.

Sigurður Kári sagðist hafna því að ekkert hefði staðið á innanríkisráðuneytinu eða stofnunum þess því þá væri barnið löngu komið til Íslands. Ögmundur sagði að Sigurður Kári ætti að kynna sér alþjóðlega sáttmála, þar á meðal barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert