Hæstiréttur hefur komist að þeirri niðurstöðu, að kjúklingaframleiðandanum Matfugli sé óheimilt að nota tiltekið auðkenni á umbúðir um lausfrystar kjúklingabringur þar sem það er of líkt skráðu vörumerki Sambands garðyrkjubænda.
Fram kemur í dómnum, að svonefnd Samband garðyrkjubænda fékk svonefnda fánarönd, þunna lárétta rönd með sömu litum og í íslenska þjóðfánanum, skráða sem vörumerki.
Sambandið taldi að merki, sem Matfugl notaði sem auðkenni á umbúðir, væri svo líkt merki sínu að af því stafaði hætta á ruglingi. Merki Matfugls er ekki skráð vörumerki.
Hæstiréttur taldi að merkin væru ekki aðeins lík í skilningi laga um vörumerki, heldur væri líkingin í þeim mæli að hætta væri á misskilningi um tengsl milli notenda merkjanna og þar með ruglingi á þeim. Féllst rétturinn því á kröfu um að banna Matfugli að nota sitt merki.