Neitar ásökunum um ritskoðun

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra.
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra. mbl.is/Ómar

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sagðist ekki vera í hlutverki neins ritskoðanda þegar hann svaraði spurningu Einars K. Guðfinnssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins um ritskoðun á svörum utanríkisráðuneytisins um landbúnaðarmál, sem bárust Evrópusambandinu.

Einar sagði í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag, að þessa vikuna hafi staðið yfir rýnifundir um landbúnaðarmál í Brussel.

„Frá því var greint að það hefðu borist svör við þeim spurningum sem Evrópusambandið hafði lagt fyrir íslensk stjórnvöld frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Og eðli málsins samkvæmt urðu þau svör að fara í gegnum utanríkisráðuneytið. Þar voru þau ritskoðuð, eða gerð tilraun til þess,“ sagði Einar.

„Niðurstaðan var sú að fara ekki með þessi svör með þeim hætti út til viðræðna við Evrópusambandið heldur yrði það gert með þeim hætti að tiltekin svör voru tekin út úr sem ekki voru þóknanleg hæstvirtum utanríkisráðherra. Og þau voru flutt síðan munnlega. Nú spyr ég: „Hvers vegna var þetta gert svona?““

 „Þessi spurning háttvirts þingmanns er á miklum misskilningi byggð. Í fyrsta lagi eru engar samningaviðræður í gangi. Í öðru lagi er utanríkisráðherra ekki í hlutverki neins ritskoðanda. Og í þriðja lagi þá var svörum sem bárust til utanríkisráðherra að engu leyti breytt,“ sagði Össur þegar hann svaraði fyrirspurn Einars.

„Samningahópurinn og nefndin sem er þarna úti, hún hefur skýrt umboð. Ekki bara umboð sem er að finna í samþykkt utanríkismálanefndar, heldur hefur hún um allt sem hún segir á þessum fundum skýrt umboð ríkisstjórnarinnar. Í ríkisstjórninni var farið nákvæmlega yfir þann ramma sem nefndin hefur umboð innan til þess að gefa yfirlýsingar fyrir Íslands hönd,“ bætti Össur við í lok umræðunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert