Landskjörstjórn hefur póstlagt bréf til kjörinna fulltrúa á stjórnlagaþingi. Í bréfinu er það skýrt, með vísan í ákvörðun Hæstaréttar fyrr í vikunni um að kosningin hafi verið ógild, að kjörbréf þeirra teljist það þar með líka.
Haft er eftir Ástráði Haraldssyni, formanni landskjörstjórnar, í Morgunblaðinu í dag að störfum aðkomu nefndarinnar að kosningunum sé nú lokið. „Landskjörstjórn er þannig apparat að hún annast bara framkvæmd kosninganna eftir því sem lög mæla fyrir um - það er allt og sumt,“ sagði Ástráður.
Landskjörstjórn fundaði í gærkvöldi um þá stöðu sem nú er komin upp, og þar á meðal um ógildingu kjörbréfanna sem hinum kjörnu fulltrúum höfðu verið send. Lög um stjórnlagaþing gera ráð fyrir því að landskjörstjórn gefi þau út.
Þórhallur Vilhjálmsson, ritari landskjörstjórnar, segir að kjörbréfin verði ekki afturkölluð, í ákvörðun Hæstaréttar felist ógilding þeirra. „Menn töldu eðlilegt að senda þjóðkjörnum fulltrúum [bréf] þess efnis, þar sem vísað er í niðurstöðu dómsins. Eðli málsins samkvæmt séu því kjörbréfin, sem voru gefin út, ógild. Þetta er ákvörðun landskjörstjórnar sem lá fyrir í gær,“ segir Þórhallur.
Bréfin voru póstlögð nú í dag, og því má ætla að þau berist fulltrúunum á næstu dögum.