Á fundi byggðarráðs Skagafjarðar í gær var lagt fram bréf frá Póst- og fjarskiptastofnun varðandi ósk Íslandspósts um lokun póstafgreiðslu á Hofsósi, sem starfrækt hefur verið í samstarfi við verslun Kaupfélags Skagfirðinga.
Fram kemur á vef Feykis, að Íslandspóstur telur ekki viðskiptalegar forsendur fyrir því að rekin sé póstafgreiðsla áfram í óbreyttri mynd og óskar því eftir að fá að loka afgreiðslu og bjóða upp á þjónustu póstbíls.
Póst- og fjarskiptastofnun hefur óskað eftir því að umsögn sveitarstjórnar berist fyrir 8. febrúar 2011 en á fundinum í gær kom fram að byggðarráð leggst gegn lokun póstafgreiðslunnar og var sveitarstjóra falið að svara erindinu formlega á þeim nótum.