Yfir 60% landsmanna leitar helst frétta á netmiðlum með tölvu og um 20% með því að horfa á sjónvarpsfréttir. Tæplega 10% fá fréttir í gegnum dagblöð og 7,8% með því að hlýða á útvarpsfréttir. Þetta kemur fram í könnun sem Miðlun gerði 17.-24. janúar sl.
Spurt var: „Hvernig leitar þú þér helst frétta?“ Alls voru 843 spurðir, og þar af tóku 817 afstöðu.
Í tilkynningu frá Miðlun segir að spurningin geri ráð fyrir að almenningur leiti nú frétta frekar en að bíða eftir fréttatímum sem aðgerðalitlir neytendur.
„Niðurstöður úr
þessari spurningu eru áhugaverðar. Mikilvægt er að skoða þær m.t.t.
orðalags spurningarinnar. Frekari rannsókna er þörf til að varpa ljósi á
þær áhugaverðu breytingar sem orðið hafa á fréttaneyslu almennings,“ segir í tilkynningu.
Spurningavagn Miðlunar er framkvæmdur mánaðarlega. Vagninn er sendur einstaklingum á aldrinum 18-75 ára í tölvupósti. Niðurstöður byggja á 800 svörum hverju sinni - svörun er kvótastýrð byggt á lýðfræðilegum breytum. Svarhlutfall er að jafnaði 50 - 60%. Einstaklingar sem fá vagninn sendan eru valdir með tilviljanakenndum hætti úr þjóðskrá.
Gögnum er skilað í rafrænum skýrslum - með einfaldri myndrænni framsetningu og krosstöflum sem taka mið af bakgrunnsbreytum s.s. kyni, aldri, búsetu, starfi, menntun og heimilistekjum.