Marie Amelie, sem var nýverið vísað frá Noregi, vill ekki verða íslenskur ríkisborgari að sögn lögmanns hennar. Árni Johnsen og Sigmundur Ernir Rúnarsson hafa lagt til að hún fái íslenskan ríkisborgararétt.
Lögmaður Amelie segir hins vegar við að hún vilji fá viðurkenningu frá norskum stjórnvöldum. Annað væri óeðlilegt.
Fengi Amelie íslenskan ríkisborgararétt gæti hún komist aftur til Noregs. Hún hefur hins vegar ekki áhuga á því. Lögmaður Amelie segir að hún kunni hins vegar að meta stuðninginn.
Í frumvarpi sem dreift var á Alþingi í gær leggja þeir Árni Johnsen og Sigmundur Ernir Rúnarsson það til að Maria Amelie, sem heitir í raun Madina Salamova, fái íslenskan ríkisborgararétt. Henni var nýlega vísað frá Noregi, hvar hún hafði búið frá árinu 2002 sem ólöglegur innflytjandi.
Mál Maria, sem er 25 ára, hefur vakið mikla athygli í Noregi, en hún kom til Noregs með foreldrum sínum frá Norður-Ossetíu í Rússlandi. Hún var send aftur til Rússlands nýverið, þó hún segist engan þekkja þar.
Lögmaður hennar segir að henni hafi borist alls konar tilboð að undanförnu og þau hafi komið hvaðanæva að. M.a. hafi fréttastofan í Georgíu boðið henni starf.
Hann segist vonast til að Amelie, sem er nú stödd í Moskvu, geti snúið aftur til Noregs í sumar. Málið sé hins vegar flókið. Dragist það á langinn, jafnvel um eitt til tvö ár, þá muni Amelie íhuga þá stöðuna, og jafnvel skoða það hvort hún eigi að gerast íslenskur ríkisborgari.