Efnahagsbatinn fram úr væntingum manna

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands. Reuters

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, segir að íslenskur efnahagur hafi náð að jafna sig mun hraðar eftir hrunið en nokkur þorði að vona. Fjárhagsleg staða Íslands sé mun betri en hjá mörgum Evrópusambandsríkjum.

Ólafur Ragnar, sem er viðstaddur ársfund Alþjóðaefnahagsþingsins, World Economic Forum, sem fer fram í Davos, lét ummælin falla í viðtali við CNBC. 

Hann segir að skjótur efnahagsbati muni gera Íslandi kleift að takast hratt á við þau vandamál sem landið standi frammi fyrir.

Þá segir hann að samstarfi Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins muni ljúka á þessu ári.

Ólafur Ragnar tekur þátt í þinginu í dag og á morgun.

Í tilkynningu frá skrifstofu forseta segir að Ólafur Ragnar muni taka þátt í fjölda málþinga og samræðufunda þar sem m.a. verði fjallað um þróun efnahagsmála, eflingu viðbragða og viðvaranir vegna fjármálakreppu og náttúruhamfara, arðbæran sjávarútveg á grundvelli sjálfbærrar nýtingar auðlinda hafsins og alþjóðlegt samstarf á þeim vettvangi.

Þá muni forsetinn, ásamt forseta Finnlands og forsætisráðherrum Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur, taka þátt í málstofu um norræna módelið í efnahagsmálum og velferðarþjónustu, og um hvað aðrar þjóðir geta lært af reynslu Norðurlanda.

Forseti muni einnig ræða við fjölda fjölmiðla. Hann ræddi m.a.við CNBC og verði í kvöld í beinni útsendingu á CNN. Forseti ræddi einnig í morgun við sjónvarpsstöð Reuters og alþjóðlegu sjónvarpsstöðina Bloomberg.

Á meðan forseti dvelur í Davos mun hann eiga viðræður við ýmsa áhrifamenn á vettvangi alþjóðamála. Alþjóða efnahagsþingið sitja þjóðarleiðtogar víða að úr veröldinni, stjórnendur alþjóðastofnana, forystumenn í efnahagsmálum og fjármálalífi auk fjölda sérfræðinga og fjölmiðlafólks.

Klaus Schwab, stjórnandi og stofnandi World Economic Forum, bauð Ólafir Ragnari að sækja Alþjóða efnahagsþingið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka