„Það var fyrirsjáanlegur mikill kostnaður ef við þyrftum að fara að byggja sérstaka kjörklefa. Það yrði þá náttúrlega aðeins í eitt skipti. Það myndi aldrei verða svona fjölmennt aftur.“
Þetta segir Hjalti Zóphóníasson, fráfarandi skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu, um afstöðu ráðuneytisins til þess að láta smíða kjörklefa gagngert vegna kosninga til stjórnlagaþings í haust.
„Já, meðal annars,“ svarar Hjalti er hann er inntur eftir því hvort horft hafi verið í kostnaðinn.
Spurður í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag hvort fyrirspurnir hafi borist frá kjörstjórnum í aðdraganda kosninganna segir Hjalti, sem lét af störfum fyrir aldurs sakir um áramótin, að það hafi „endalaust verið hringt og spurt um allt milli himins og jarðar“, meðal annars út í skilrúmin sem komu í stað kjörklefa.