Landskjörstjórn hefur ákveðið að segja af sér. Ástæða afsagnarinnar er dómur Hæstaréttar sem ógilti kosningar til stjórnlagaþings.
„Að liðnum hverjum alþingiskosningum kýs Alþingi til fjögurra ára í senn fimm einstaklinga í landskjörstjórn. Til að landskjörstjórn geti rækt lögbundnar skyldur sínar verður að ríkja friður um störf hennar. Landskjörstjórn telur að hún hafi gert sitt ítrasta til að kosningar til stjórnlagaþings gætu farið löglega fram innan þess lagaramma sem settur hafði verið.
Landskjörstjórnarmenn hafa í kjölfar ákvörðunar Hæstaréttar 25. janúar sl., um að lýsa kosningar til stjórnlagaþings ógildar, farið yfir málið og ákveðið í ljósi þeirra aðstæðna sem upp eru komnar að segja sig frá störfum í landskjörstjórn frá og með deginum í dag að telja,“ segir í yfirlýsingu frá landskjörstjórn.
Fimm sitja í landskjörstjórn, en hún var kosin af Alþingi 11. ágúst árið 2009. Eftirtaldir einstaklingar sitja í landskjörstjórn:
Ástráður Haraldsson
Bryndís Hlöðversdóttir
Hervör Lilja Þorvaldsdóttir
Þórður Bogason
Þuríður Jónsdóttir
Á fundi landskjörstjórnar 18. ágúst 2009 var Ástráður Haraldsson kosinn formaður og Bryndís Hlöðversdóttir varaformaður.
Ritari landskjörstjórnar er Þórhallur Vilhjálmsson.