Mikilvægur áfangi í rannsókn

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari.
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari. mbl.is/Ómar

Þau gögn sem embætti sérstaks saksóknara fær nú afhent frá Banque Havilland, áður Kaupþingi í Lúxemborg, varða rannsókn á viðskiptum með hlutabréf í bankanum sjálfum sem og viðskipti með skuldatryggingar, sem ætlað var að hafa áhrif á skuldatryggingarálag.

Húsleit á vegum embættisins var gerð í febrúar í fyrra, en viðskiptavinir Banque Havilland kærðu afhendingu gagnanna. Því hafa þau ekki fengist afhent fyrr en nú, eftir að Hæstiréttur í Lúxemborg úrskurðaði þar um.

„Þetta snertir aðallega hlutabréfaviðskiptin og svo skuldatryggingarálagsviðskipti,“ segir Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari. Um er að ræða grun um markaðsmisnotkun með skuldatryggingar, sem lýsir sér í því að bankinn sjálfur lánar til viðskipta með tryggingarnar, og hefur þannig áhrif á verð þeirra.

Ólafur segir rannsóknina ekki hafa verið í biðstöðu síðan ljóst varð að töf yrði á afhendingu gagnanna.

„Nei, hún hefur ekki verið það. En það er náttúrulega ljóst að þetta er mikilvægur áfangi í að koma henni áfram.“

Um er að ræða mikið magn gagna sem embættið fær nú í hendur. Ólafur segist þó ekki reikna með að það taki embættið sérstaklega langan tíma að vinna úr þeim.

„Við erum komin í ágætis þjálfun við að eiga við mikið gagnamagn,“ segir hann. „Þannig að það er ekkert nýtt fyrir okkur. Í sumum málum hleypur fjöldi tölvupósta á milljónum.“

Ólafur segir það ekki síður stóran áfanga að nú hafi embættið byggt upp þekkingu á því hvernig rétt sé að eiga við yfirvöld í Lúxemborg. Hann bendir einnig á það að fyrir áramót hafi verið samþykkt lagabreyting sem felli áfrýjunarstigið út, og því ætti að taka skemmri tíma að fá úr málum skorið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert