Forseti Íslands segir hið nýja Icesave-samkomulag ekki innihalda sömu „ósanngjörnu“ ákvæðin og samkomulagið sem hann vísaði til þjóðaratkvæðagreiðslu í fyrra. Samningurinn sem nú liggi fyrir sé „vitaskuld mun betri.“
Þetta sagði Ólafur Ragnar Grímsson í viðtali við Bloomberg sjónvarpstöðina, en hann er nú staddur á Alþjóðaefnahagsþinginu í Davos í Sviss.
Ólafur var í framhaldinu spurður að því hvort hann ætlaði sér að vísa samkomulaginu til þjóðarinnar. „Með vísan í stjórnarskrána mun ég ekki tjá mig um það fyrr en Alþingi hefur haft nægan tíma til að afgreiða frumvarpið. Það sem er mikilvægast er hins vegar það að Bretar, Hollendingar og Evrópusambandið hafa nú fallist á það sem ég hef sagt, og það sem við sögðum fyrir ári síðan - að gamli samningurinn hafi í grundvallaratriðum verið ósanngjarn.“