Sóley Tómasdóttir, fulltrúi Vinstri grænna í stjórn Orkuveitunnar, mun óska eftir því á stjórnarfundi OR í fyrramálið að kallaður verði saman eigendafundur til að fara yfir viðbrögð við þeirri einkavæðingarstefnu sem stjórnarformaður OR hefur lýst í fjölmiðlum.
Sóley vísar til þess að í viðtali við Morgunblaðið hafi stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur með afar skýrum hætti sagt að hann telji æskilegt að einkavæða fyrirtækið. „Hann sagðist ekki sjá hvaða yfirburði orkufyrirtæki í opinberum rekstri hafi framyfir þau sem eru í einkaeigu, að lögboðin þjónusta og samkeppnisrekstur fari illa saman og að fyrirtækinu væri almennt betur borgið í höndum einkaaðila en sveitarfélaga.“
Sóley segir þessar yfirlýsingar skjóta skökku við nú þegar almenningur geri sífellt meiri ríkari kröfu um opinbert eignarhald á auðlindum, virkjunum og orkufyrirtækjum. Þá bendir hún á að ríkisstjórnin sé að reyna vinda ofan af einkavæðingu HS Orku.
Einnig veltir Sóley fyrir sér áhrifum yfirlýsingar stjórnarformannsins á stöðu fyrirtækisins gagnvart lánardrottnum. „Einhver kynni að spyrja sig hversu öruggt það er að taka þátt í endurfjármögnun fyrirtækisins þegar möguleiki kynni að opnast á að kaupa það að hluta eða í heild.“
Sóley segir að hér hljóti að vera um alvarlegan trúnaðarbrest að ræða við yfirlýsta stefnu fyrirtækisins og segir spurningar vakna um hvort nægilegt traust ríki milli meirihluta borgarstjórnar og stjórnarformanns til að hann geti gengt hlutverki sínu áfram.