Kjartan Magnússon borgarfulltrúi gagnrýnir harðlega ummæli fulltrúa Samfylkingar og Besta flokksins í fjölmiðlum um Orkuveitu Reykjavíkur sem hann segir að séu ábyrgðarlaus.
Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkti í morgun tillögu um að óska eftir eigendafundi vegna ummæla stjórnarformanns fyrirtækisins í Morgunblaðinu í gær. Við það tækifæri lagði Kjartan Magnússon, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í stjórn fyrirtækisins, fram eftirfarandi bókun:
„Á undanförnum mánuðum hefur undirritaður hvað eftir annað gert athugasemdir á vettvangi stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur og borgarstjórnar við ábyrgðarlaus ummæli fulltrúa Samfylkingar og Besta flokksins í fjölmiðlum um fyrirtækið. Sum þessi ummæli hafa verið til þess fallin að draga úr trúverðugleika Orkuveitunnar og veikja stöðu hennar í yfirstandandi viðræðum við banka og lánastofnanir um endurfjármögnun lána. Ljóst er að einstök ummæli stjórnarformanns í Morgunblaðinu 27. janúar eru til þess fallin að auka deilur um fyrirtækið á opinberum vettvangi og hætta er á að þau skaði þá viðkvæmu vinnu við endurfjármögnun sem nú stendur yfir. Að sjálfsögðu er kjörnum fulltrúum í stjórn fyrirtækisins og sveitarstjórnum eigendasveitarfélaga frjálst að ræða opinberlega um skoðanir sínar á málefnum og rekstrarformi fyrirtækisins og er það eitt af hlutverkum þeirra að halda almenningi vel upplýstum um stöðu þess en brýnt er að í slíkum umræðum hafi fulltrúar ætíð í huga hvaða afleiðingar slík ummæli geta haft.“