Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, segir ummæli stjórnarformanns Orkuveitu Reykjavíkur um að til greinar komi að einkavæða fyrirtækið með hreinum ólíkindum. Umræða verður um málefni Orkuveitunnar í borgarstjórn á þriðjudaginn.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs hafa óskað eftir sérstakri umræðu um málefni Orkuveitu Reykjavíkur og yfirlýsingar stjórnarformanns fyrirtækisins um breytt rekstrarform þess á næsta fundi borgarstjórnar, þriðjudaginn 1. febrúar.
Haraldur Flosi Tryggvason, stjórnarformaður OR, sagði í samtali við viðskiptablað Morgunblaðsins í gær: „Sem rekstrarmaður sé ég ekki hvaða yfirburði opinber orkufyrirtæki hafa yfir sambærileg fyrirtæki í einkarekstri. Ekki nema fyrir þær sakir að íbúar á eigendasvæðinu bera ábyrgð á skuldbindingum fyrirtækisins. Ég sé ekki hvernig opinbert eignarhald á OR hefur haft jákvæð áhrif á reksturinn, þvert á móti má sjá þess merki að borgarábyrgð sem tryggt hefur greiðan aðgang að ódýru fjármagni hafi stuðlað að óheppilegri fjárfestingagleði.“
„Mér finnst þessi ummæli stjórnarformanns Orkuveitunnar með hreinum ólíkindum, sérstaklega í ljósi fyrri yfirlýsinga núverandi meirihluta og þeirra aðstæðna sem nú ríkja í rekstri Orkuveitunnar. Það segi ég vegna þess að allir stjórnmálaflokkar hafa fyrir allar borgarstjórnarkosningar heitið íbúum því að það standi ekki til að breyta rekstrarformi félagsins. Það hefur ríkt um þetta góð sátt á vettvangi borgarstjórnar í langan tíma. Það vekur mikla furðu að nýr stjórnarformaður skuli vilja stefna þessari sátt í uppnám sem hefur skipt svo miklu máli fyrir félagið.“
Hanna Birna bendir á að í REI-skýrslunni og í öðrum samþykktum borgarstjórnar komi fram eindreginn vilji borgarstjórnar, að félagið sé áfram í opinberri eigu.
„Tímasetning þessara yfirlýsinga er sérlega óheppileg. Fyrirtækið stendur í mjög erfiðum verkefnum, sem tengjast endurfjármögnun í kjölfar efnahagshrunsins. Okkur hefur tekist að koma fyrirtækinu í gegnum það, en það er ekki síst því að þakka að lánadrottnar vita að fyrirtækið byggir á öflugri ábyrgð eigenda sinna. Það að rugga þeim báti núna, með svona yfirlýsingum, er mjög óheppilegt. Lánadrottnar vita að um leið og eignarhaldið breytist þá breytist ábyrgðin.“
Hanna Birna sagðist ekki vita hvort það hafi farið fram einhver umræða innan meirihlutans um að breyta um stefnu varðandi eignarhald á OR. „Ég skil hins vegar ekki hvernig stjórnarformaður í félaginu getur, á þessum viðkvæmu tímum, leyft sér að tjá sig með þessum hætti um svona stóra spurningu án þess að það sé rætt í meirihlutanum. Borgarstjóri og formaður borgarráðs verða að svara því.“