Hægt hefði verið að grafa Héðinsfjarðargöng sex sinnum – kostnaðurinn var áætlaður 12 milljarðar – fyrir þá upphæð sem Vinnumálastofnun áætlar að fari í atvinnuleysisbætur á árunum þremur eftir hrun, gangi spá um atvinnuleysi út þetta ár eftir.
Stofnunin áætlar að greiddir verði út 21,3 milljarðar króna í atvinnuleysisbætur í ár, samanborið við 23,6 milljarða 2010 og 25,4 milljarða 2009. Er hér gengið út frá því að atvinnuleysi verði um 8% á þessu ári en samanlagt gera þetta 70.300 milljónir króna í bætur á árunum þremur. Það er gríðarlegt fé.
Til marks um það má nefna að fyrir þessa fjárhæð mætti kaupa ríflega fjórar nýjar 767-200 Boeing-farþegaþotur en fram kemur á vefsíðu flugvélaverksmiðjanna að listaverð einnar þotu sé nú um 16,7 ma. kr. á núverandi gengi bandaríkjadals.Þá er upphæðin 70-falt hærri en fyrirhugaður niðurskurður Reykjavíkurborgar, stærsta sveitarfélags landsins, í menntamálum.