Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar að þeir stjórnarliðar sem líta á samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna sem plagg sem ekki þyrfti að taka mark á væru að leika sér að eldinum.
Jóhanna sagði að oft hefði verið tekist á um leiðir í stjórnarsamstarfinu. „Því er hins vegar ekki að leyna að sá óróleiki sem verið hefur í samstarfi við hluta þingflokks Vinstri grænna hefur skaðað stjórnarsamstarfið og dregið úr trúverðugleika ríkisstjórnarinnar. Vegna órofa samstöðu innan Samfylkingarinnar og traust samstarf við formann og stærsta hluta VG hefur þetta hins vegar ekki stöðvað framgang mikilvægra mála ríkisstjórnarinnar.
En það er hættulegur leikur að spila pólitískan einleik á kostnað samstarfsfélag sinna í trausti þess að samstaða annarra og stuðningur við óvinsælar en óhjákvæmilegar ákvarðanir tryggi að upp úr stjórnarsamstarfinu slitni ekki.
Hættulegur leikur sem gæti endað öðruvísi en menn ætla. Þeir stjórnarliðar sem líta á samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna sem plagg sem ekki þarf að taka mark á eru að leika sér að eldinum.“