Forsætisráðherra haldi ró sinni

Morgunblaðið/Alfons

Samtök atvinnulífsins mælast til þess að forsætisráðherra haldi ró sinni, í yfirlýsingu sem samtökin senda frá sér í kjölfar ræðu Jóhönnu Sigurðardóttur í dag þar sem hún lét þung orð falla um SA og LÍÚ.  „Æskilegt er að æðstu ráðamenn þjóðarinnar haldi ró sinni og flytji mál sitt yfirvegað og uppbyggilega nú þegar fjallað er um stór mál sem varða vegferð þjóðarinnar næstu árin," segir í yfirlýsingu SA.

Samtökin segja að árásir forsætisráðherra á Landssamband íslenskra útvegsmanna séu fordæmalausar og eigi sér engar málefnalegar forsendur.  Sjávarútvegsfyrirtæki hafi starfað eftir lögum um stjórn fiskveiða sem voru mótuð í tíð ríkisstjórna sem forsætisráðherra sat í og ber því mikla  ábyrgð á. „Löggjöfin um stjórn fiskveiða hefur löngum verið deiluefni en endurskoðunarnefnd á vegum núverandi ríkisstjórnar náði víðtæku samkomulagi um grundvallarbreytingu á stjórnkerfinu með aðild stjórnarflokkanna, tveggja stærstu stjórnarandstöðuflokkanna og allra helstu hagsmunasamtaka sjávarútvegsins bæði fyrirtækja og starfsfólks," segir í yfirlýsingunni.

Í yfirlýsingu SA segir ennfremur:

„Sáttin í endurskoðunarnefndinni varð um svokallaða samningaleið þar sem byggir á því að nýtendur auðlindarinnar geri formlega tímabundna samninga við ríkið um nýtingarréttinn.  Í því felst fullt forræði ríkisins á fiskistofnunum sem enginn deilir um að séu eign þjóðarinnar.  Helstu álitamálin sem þarf að útfæra snúa að tímalengd og endurnýjunarákvæðum samninga, gjaldtöku og hversu hátt hlutfall af heildarafla eigi að binda í samninga.  Niðurstaðan í þessum málum hefur verulega þýðingu og samtök sjávarútvegsfyrirtækja hafa ítrekað óskað eftir að fá aðild að frekara sáttastarfi í því skyni að útfæra samkomulagið í endurskoðunarnefndinni.  Ekki hefur verið orðið við þessum óskum og heldur hefur öll meðferð málsins alið á tortryggni sem forsætisráðherra viðheldur nú með ómaklegum árásum sínum.

Núverandi ríkisstjórn hefur einstakt tækifæri til þess að leiða til lykta langtímasátt um stjórn fiskveiða.  Það þarf einstakan klaufaskap og hæfileikaleysi til forystu til þess að klúðra málinu og forsætisráðherra er í offorsi sínu á slíkri braut.

Samtök atvinnulífsins eru og hafa alltaf verið tilbúin til þess að vinna með núverandi ríkisstjórn að því stóra hagsmunamáli allrar þjóðarinnar að komast út úr því kreppuástandi hér ríkir og birtist í bágum hag fyrirtækja og heimila og atvinnuleysi 14000 manns.  Samtök atvinnulífsins hafa lagt fram tillögur við viðsemjendur sína á vinnumarkaðnum og ríkisstjórnina um atvinnuleið.  Hún byggir á því að sækja fram með fjárfestingum í atvinnulífinu, fyrst og fremst í útflutningsgreinum, skapa ný störf í bráð og lengd, auka atvinnu og minnka atvinnuleysi, jafnframt því að auka kaupmátt og treysta lífskjör til lengri tíma.  Óhugsandi er að fara atvinnuleið úr út kreppunni án þess að sjávarútvegurinn, helsta útflutningsgreinin og ein meginstoð samfélagsins, geti tekið fullan þátt í þeirri sókn.

Forsætisráðherra á ekki að hræðast viðfangsefnin eins og ræða hennar á fundi Samfylkingarinnar ber með sér.  Ísland þarf á því að halda að forsætisráðherra þjóðarinnar, Jóhanna Sigurðardóttir, taki ódeig þátt í því að leysa þau mál sem upp koma, þar á meðal stjórn fiskveiða, í stað þess að úthrópa atvinnulífið."

Samtök atvinnulífsins
Samtök atvinnulífsins
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka