Enginn marktækur munur er á fjölda dauðsfalla á Landspítalanum milli ára. Á síðasta ári létust 497 sjúklingar á spítalanum, en það eru jafnmargir og létust árið 2007.
Þetta kemur fram í pistli sem Björn Zoëga forstjóri Landspítala ritar á heimasíðu spítalans. Hann segir að álag á spítalann hafi verið með mesta móti að undanförnu en það sé ekki óviðráðanlegt. Hann segir að spítalinn leggi mikla áhersla á öryggi sjúklinga.
„Brýnt er að fjalla um gæða- og öryggismál sjúklinga á faglegan hátt og sem mest út frá gögnum en forðast upphlaup sem hræða sjúklinga, svekkja starfsfólk og eru umfram allt algerlega gagnslaus.
Öryggi sjúklinga verður ávallt mikilvægasta verkefni spítalans á hverju ári. Aldrei er mikilvægara að halda því á lofti en þegar fjárframlög til starfseminnar eru skert. Á þessu ári verður lögð sérstök áhersla á skipulag og framkvæmd gæðamála og áfram fylgst náið með gæðavísum svo sem tíðni spítalasýkinga, byltum og legusárum og markvisst unnið að fækkun slíkra atvika,“ segir Björn.