Flokksstjórnarfundur Samfylkingarinnar fer fram í dag, og hefst með ræðu Jóhönnu Sigurðardóttur. Þann 1. febrúar verða tvö ár síðan hún tók fyrst kvenna við embætti forsætisráðherra landsins. „Árangur ríkisstjórnarinnar og brýnustu verkefnin framundan“ verða helstu umfjöllunarefni fundarins.
Auk Jóhönnu munu þau Elfur Logadóttir formaður kvennahreyfingar Samfylkingarinnar, Árni Gunnarsson formaður 60+, Guðrún Erlingsdóttir formaður verkalýðsmálaráðs Samfylkingarinnar, Guðrún Jóna Jónsdóttir, formaður Ungra jafnaðarmanna og Ragnheiður Hergeirsdóttir formaður sveitarstjórnarráðs Samfylkingarinnar taka til máls á fundinum, sem hefst klukkan 13. Fundurinn er opinn öllum félagsmönnum í Samfylkingunni.