Verkefnið ,,Grjótkrabbi - rannsóknir og vinnsla á Suðurnesjum" hefur nú hlotið þriggja milljóna króna styrk úr Vaxtarsamningi Suðurnesja. Verkefnið gengur út á veiðar, rannsóknir, vinnslu og markaðssetningu á grjótkrabba, sem er nýleg tegund hér við land, en er þekkt nytjategund við NA strönd Ameríku.Grjótkrabbi finnst enn sem komið er hvergi í Evrópu nema á Íslandi. Styrkinn hlaut Háskólasetur Suðurnesja í Sandgerði, ásamt Náttúrustofu Reykjaness, Arctic ehf., Slægingarþjónustu Suðurnesja og MC09.
Við rannsóknina verður byggt á þeirri þekkingu og reynslu sem fengist hefur hjá Háskólasetrinu en það hefur stundað veiðar á þessum nýja landnema frá árinu 2006 í tengslum við tvö meistaraverkefni við HÍ. Verkefnisstjóri verður Halldór Pálmar Halldórsson forstöðumaður Háskólaseturs Suðurnesja í Sandgerði. Meginmarkmið verkefnisins er að stuðla að auknum rannsóknum og sjálfbærum veiðum á grjótkrabba, og komast að því hvernig hægt sé að hámarka verðmæti þeirrar auðlindar sem krabbinn er. Á fréttavef Sandgerðis, www.254.is, segir að áætlaður árangur sé margþættur. Með því forskoti sem fengist með verkefninu í vinnslu, vöruþróun og markaðssetningu afurðanna megi ætla að verkefnið leiði til verðmætasköpunar, aukinnar veltu, útflutnings og fjölgunar starfa hjá fyrirtækjunum.
Verkefnið mun að sögn 254.is skila auknum rannsóknum og þekkingu á Suðurnesjum og efla þá rannsóknastarfsemi sem fyrir er og að líkindum verða hluti af framhaldsverkefni á háskólastigi. Verkefnið mun að auki leiða til samstarfs ólíkra aðila en nýmælið felst ekki síst í því að vísindi og þróun nytja fara saman frá upphafi. Grundvallarforsenda er að klasi myndist um svona verkefni því horfa þarf til allra verkþátta samtímis. Hver aðili verkefnisins hefur yfir að ráða ákveðinni sérþekkingu sem nauðsynleg er til að verkefnið nái fram að ganga.