Tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu samþykkt

Samfylkingarmenn fylgdust með ræðu Jóhönnu í dag.
Samfylkingarmenn fylgdust með ræðu Jóhönnu í dag. mbl.is/Ómar

Flokksstjórnarfundur Samfylkingarinnar samþykkti tillögu þess efnis að beina til formanns flokksins, Jóhönnu Sigurðardóttur, að hún beiti sér fyrir því á Alþingi að samstaða náist um að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um að aflaheimildir verði innkallaður t.d. á 20 árum og boðnar til endurúthlutunar gegn gjaldi.

Á fundinum var ennfremur samþykkt stjórnmálaályktun þar sem segir að á þeim tveimur árum sem liðin séu frá því að ríkisstjórn undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur formanns Samfylkingarinnar tók við hafi orðið mikill viðsnúningur í ástandi efnahagsmála hér á landi.

„Verðbólga og stýrivextir hafa lækkað og kaupmáttur jókst á árinu 2010. Þrátt fyrir að hafa þurft að lyfta grettistaki í ríkisfjármálum hefur áherslan verið að verja kjör hinna lægst launuðu og jöfnuður hefur aukist. Unnið hefur verið að lausnum á skulda- og greiðsluvanda heimila og fyrirtækja og ýmsar breytingar gerðar í stjórnsýslunni m.a. til að auka gegnsæi. Aðildarviðræður við ESB eru í góðum farvegi og undirbúningur að breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu er hafin. Mörg brýn verkefni blasa við og brýnt er að áfram verði sjónarmið jöfnuðar og réttlætis í fararbroddi við borð ríkisstjórnarinnar.

Flokksstjórn Samfylkingarinnar fordæmir tilraun Samtaka atvinnulífsins til þess að kúga ríkisstjórn Íslands og ASÍ í tengslum við kjarasamninga með hótun um að slíta viðræðum á vinnumarkaði ef ekki verður látið af öllum breytingum á stjórnkerfi fiskveiða sem stjórnarsáttmáli Samfylkingarinnar og Vg kveður á um. Flokksstjórn fordæmir tilefnislausar tilraunir Samtaka atvinnulífsins til að taka sér löggjafarvald í landinu. Flokkstjórn hvetur ríkisstjórnina til að standa fast við ákvarðanir sínar um að koma á breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu eins og segir í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar með innköllun aflaheimilda og endurúthlutun þeirra gegn gjaldi. Aðgengi að auðlindum sjávar á ekki frekar en aðgengi að öðrum auðlindum að vera læst í höndum fárra og án afgjalds af auðlindinni eins og nú er. Kerfinu verður að breyta.Flokksstjórn Samfylkingarinnar fagnar drögum að nýrri heildstæðri orkustefnu sem öllum býðst nú að gera athugasemdir við. Orkustefna sem miðar að því að orkubúskap landsins verði hagað með sjálfbærum hætti, þar sem verndun náttúru og umhverfis, samfélagslegur ávinningur og efnahagslegt öryggi verði í fyrirrúmi getur orðið sá grundvöllur sem þjóðin getur sameinast um á þessu sviði. Flokksstjórnin fagnar afgerandi stuðningi við þjóðareign mikilvægustu auðlinda og að tryggt sé að þjóðin njóti arðsins af nýtingu þeirra. Við þessari kröfu eiga stjórnvöld að verða með heildstæðri auðlindastefnu og stofnun Auðlindasjóðs Íslands.Flokksstjórn Samfylkingarinnar hvetur ríkisstjórnina til að hvika hvergi frá því að halda stjórnlagaþing svo fljótt sem gerlegt er. Ákvörðun Hæstaréttar um ógildingu kosninganna voru vissulega mikil vonbrigði. Flokksstjórnin ítrekar mikilvægi stjórnlagaþings. Andstaða við það sýnir vantrú á lýðræðislegum vinnubrögðum og aðkomu fólksins í landinu að þessu nauðsynlega verkefni.“
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert