Alþingis að ákveða næstu skref

Ögmundur Jónasson heilsar Dögg Harðardóttir, sem kosnin var til setu …
Ögmundur Jónasson heilsar Dögg Harðardóttir, sem kosnin var til setu á stjórnlagaþing. mbl.is/Ómar

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, segir það Alþingis að ákveða næstu skref hvað stjórnlagaþing varði. Hann fundaði í dag með þeim sem kjörnir voru á þingið, en kosningin var sem kunnugt er úrskurðuð ógild í síðustu viku. Ekki eru allir fulltrúarnir sammála um hvernig vinna eigi úr stöðunni. 

Ögmundur segir fundinn hafa verið gagnlegan og að þar hafi ýmis sjónarmið komið fram. Ekki séu allir hinna kjörnu fulltrúa sammála um næstu skref.

Sú hugmynd var meðal annars rædd að þingið yrði einfaldlega skipað, en Ögmundur segir þá hugmynd ekki hafa verið setta fram sem tillögu. „Nei, þetta var miklu opnari umræða en svo. Mismunandi sjónarmið voru uppi innan hópsins, og þeirra að skýra frá því. En þetta var ekki umræða um einhverjar tillögur, heldur fyrst og fremst voru menn að viðra sjónarmið,“ segir hann.

„Ég hef sjálfur haft þá skoðun að úrskurði Hæstaréttar beri að hlíta og fylgja til hins ítrasta, þótt ég hafi gjarnan látið fylgja að mér finnist hann ekki yfir gagnrýni hafinn og mikilvægt að ræða þær forsendur sem hann byggir á og þau lög sem hann starfar samkvæmt,“ segir Ögmundur.  „Það verður okkar hlutskipti núna að taka á þeim annmörkum sem voru í lögunum um framkvæmd þessara kosninga. Það snýr þá líka að því að skýra hlutverk hæstaréttar, eða þeirra sem fjalla um kærur. Þannig að það sé alveg skýrt.“

Á fundinum var einnig rætt um praktísk atriði á borð við það hvort fulltrúarnir eigi heimtingu á fébótum vegna stöðunnar sem upp er komin.

„Slík sjónarmið komu fram, um hvernig yrði tekið á stöðu fólks, því að ýmsir hefðu gert ráðstafanir til að hverfa úr starfi og fá aðra til að gegna því í sinn stað. Það eru alls konar slíkir hlutir sem eru uppi og þarf að horfa til, að sjálfsögðu,“ segir Ögmundur. Ákvarðanir um slíkt heyri þó ekki undir sig, og hann  muni koma málinu á framfæri við ríkisstjórnina.

„Ég sagði að eðli málsins samkvæmt hefði ég ekki umboð til þess að taka ákvörðun í einu eða neinu, enda á forræði Alþingis að ákveða næstu skref. En þá hugsanlega að tillögu ríkisstjórnar, og við erum meðvituð um að það þarf að gera fyrr en síðar, til þess að fá fast land undir fætur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert