Dagný Björk Örlygsdóttir varð Danmerkurmeistari í kjötiðn í keppni verk- og iðnnema í Danmörku sem fram fór um helgina í Óðinsvéum á Fjóni.
Alls var keppt í 23 greinum og þar á meðal í kjötiðn, þar sem Dagný Björk sigraði með sannfærandi hætti. Dagný Björk nemur kjötiðn við verkmenntaskólann Århus Tech í Árósum. Alls kepptu 10 kjötiðnaðarnemar í úrslitunum, en undanfarar Danmerkurmeistarakeppninnar voru landshlutakeppnir sem haldnar voru í lok síðasta árs víða um landið.
Keppnin í kjötiðninni fór þannig fram að keppt var bæði í kjötskurði, kjötvinnslu og framsetningu varanna. Fyrir sigurinn fékk Dagný Björk, auk titilsins Danmerkurmeistarinn 2011, að launum rúmar 400 þúsund íslenskar krónur. Hún mun einnig keppa fyrir hönd Danmerkur í alþjóðlegum keppnum í kjötiðn á árinu.