Páll Valdimar Guðmundsson Kolka eða Palli jójó er í baráttu um að ná í eitt af efstu sætunum á Evrópumeistaramótinu í jójó sem fram fer í Prag í Tékklandi.
Páll, sem titlar sig sem jójómeistara í símaskránni, varð í öðru sæti í undanúrslitum, en mótinu lýkur í kvöld. Hann sagði í samtali við mbl.is að hann teldi litlar líkur á að hann myndi sigra á mótinu, en að hann stefndi að því að verða í einu af efstu sætunum.
Keppni í jójó gengur út á að gera æfingar með jójó. Keppt er í rútínuæfingum og með frjálsri aðferð. Dómarar gefa síðan stig eftir því sem þeir meta frammistöðu keppenda.
Fjöldi keppenda úr flestum löndum Evrópu keppa á mótinu sem hófst í gær.