Skattbyrði heimila hækkaði um eitt prósentustig á milli áranna 2008 og 2009 og var skattbyrðin síðara árið svipuð og hún var árið 2006. Þrátt fyrir hækkun var hún hins vegar lægri en á árunum 1996 til 2005. Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar Þjóðmálastofnunar Háskóla Íslands.
Niðurstöðurnar eru kynntar í skýrslunni „Skattbyrðin í kreppunni,“ sem unnin var af þeim Stefáni Ólafssyni og Arnaldi Sölva Kristjánssyni.
Á meðal þess sem þeir komast að er að skattbyrði lágtekjufólks hafi verið lægri árið 2009 en síðustu 8 ár á undan. Skattbyrði hátekjufólks hefur hins vegar hækkað, en var ívið lægri en árið 2002 og mun lægri en árið 1996.
Rannsóknin byggir á gögnum frá Ríkisskattstjóra um álagningu vegna ársins 2009. Hún nær ekki til óbeinna skatta eins og virðisaukaskatts og vörugjalda.
Þjóðmálastofnun Háskóla Íslands