Fréttaskýring: Blönduð leið farin

Nýtt frumvarp um stjórn fiskveiða mun meðal annars kveða á um aukið vægi byggðakvóta í heildarúthlutun aflaheimilda. Úthlutunin gæti þó orðið með öðrum hætti en tíðkast hefur hingað til. Frumvarpið byggist einnig á samþættingu þeirra valkosta sem starfshópur um endurskoðun fiskveiða lagði til. Þetta segir Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra í samtali við Morgunblaðið.

„Þó að meginhluta aflaheimilda sé núna úthlutað sem aflahlutdeild á skip er þeim líka úthlutað með öðrum hætti. Þar er hægt að nefna byggðakvóta, línuívilnun og strandveiðar. Þetta er allt saman hluti af núgildandi löggjöf um fiskveiðar. Frumvarpið gæti breytt þessum grunni og vægi einstakra þátta í heildarúthlutun. Þegar kemur að hinni almennu úthlutun er gert ráð fyrir að henni sé ráðstafað á grunni gjaldtöku og tímabundinna nýtingarsamninga þar sem ófrávíkjanleg skilyrði verða sett,“ segir Jón, sem bætir því við að frumvarpið miðist við stöðu og rétt byggða landsins: „Minn hugur er sá að byggðasjónarmið munu vega mjög þungt í þessari löggjöf. Við höfum byggðakvóta núna, hann er í sjálfu sér barn síns tíma, þó að hann hafi komið að góðum notum.“ Drög að nýju frumvarpi um stjórn fiskveiða hafa ekki verið skrifuð. Tillögur að breyttri skipan liggi þó frammi á minnisblöðum.

Jón segir að fráleitt sé af Samtökum atvinnulífsins að halda almennum kjarasamningum í gíslingu, þar til að í ljós komi hvaða ávöxt vinna að breyttri fiskveiðilöggjöf muni bera. „En hins vegar er það hárrétt að mikilvægt er að ljúka þessu máli með eins miklum hraði og hægt er og að vandað verði til verka.“

Víðtæk sátt að skapast

Flokksstjórnarfundur Samfylkingarinnar samþykkti um helgina tilmæli þess efnis að Jóhanna Sigurðardóttir beiti sér fyrir því að þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin um að fyrningarleið verði farin. Spurður um þessa stefnumörkun Samfylkingarinnar segir Jón að almenn sátt sé að skapast í þjóðfélaginu, þar á meðal innan útgerðarinnar, um óskoraðan rétt og ráðstöfun þjóðarinnar á fiskveiðiauðlindinni. Ennfremur að bæði forræði og ráðstöfun auðlindarinnar fari ávallt að íslenskum lögum.

Útgerðin verður að vera með

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, ítrekar fyrri orð um að nauðsynlegt sé að koma sjávarútvegsmálunum á hreint áður en haldið sé til kjaraviðræðna. „Þetta skiptir mjög miklu máli ef menn vilja ná upp fjárfestingu og framleiðslu aftur af stað. Þá verður sjávarútvegurinn að vera með, það er ekki hægt að skilja hann eftir,“ segir hann. „Þetta snýst um hvort menn vilja fara atvinnuleiðina eða gömlu verðbólguleiðina.“

Inntur eftir því hvort hann telji skynsamlegt að auka hlut byggðakvóta í heildarúthlutun aflaheimilda, segir Vilhjálmur: „Almennu sjónarmiðin hafa verið þau að það verði að afmarka þetta á skynsamlegan hátt. Það er ekkert kerfi fullkomið og þess vegna hafa menn talið að eðlilegt sé að einhver hluti aflaheimilda renni til hluta eins og byggðakvóta. En verði það of stór hluti heildarúthlutunar raskar það mjög samkeppnisstöðu manna í þessari grein.“

Þjóðin kjósi um kerfið

Flokksstjórnarfundur Samfylkingarinnar samþykkti um helgina að beina þeim tilmælum til Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra og formanns Samfylkingarinnar, að hún beiti sér fyrir því á Alþingi að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um að aflaheimildir verði innkallaðar á ákveðnum tíma og þær síðan „boðnar til endurúthlutunar gegn gjaldi“. Þessi tilmæli voru samþykkt eftir að hafa borist úr sal.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert