Fjöldinn streymir inn í Kaíró

„Það er mikill straumur af fólki inn í borgina núna,“ sagði Elín Viðarsdóttir fasteignasali sem stödd er í Kaíró í Egyptalandi. Hún sagði að mannfjöldi, sem ábyggilega teldi hundruð þúsunda, stefndi á Frelsistorgið til að mótmæla útgöngubanni sem átti að hefjast klukkan þrjú að þarlendum tíma.

„Við erum að reyna að koma okkur þaðan, því útgöngubannið á að byrja klukkan þrjú og klukkan er bara fimm mínútur í,“ sagði Elín í samtali við mbl.is fyrr í dag. Klukkan í Kaíró er tveimur stundum á undan íslensku klukkunni. „Torgið er orðið sneisafullt af borgurum sem eru að mótmæla útgöngubanninu.“

Elín sagði að mannfjöldinn teldi „miklu, miklu meira“ en tugi þúsunda og fólkið væri þarna ábyggilega í hundruðum þúsunda að mótmæla. „Þetta er fólk á öllum aldri, konur og karlar. Heilu fjölskyldurnar flykkjast hér út,“ sagði Elín.„Við ætlum bara að vera inni á hóteli og gæta okkar öryggis.“ 

Elín og maður hennar, Gerd Hammerström hjúkrunarfræðingur, vörðu öllum gærdeginum á flugvellinum í Kaíró við að reyna að komast heim. Hún sagði að þau hafi leitað til flugfélaganna í gær eftir fari frá landinu en ekkert haft upp úr þeirri leit. 

„Við erum að athuga hvort við getum nýtt okkur sendiráðin. Maðurinn minn er Þjóðverji og hann er búinn að hafa samband við þýska sendiráðið,“ sagði Elín. „Við eigum far héðan á föstudaginn en vitum ekki hvort það stenst. Við vonum það en erum að hugsa um að fara aftur í fyrramálið upp á flugvöll til að kanna málin.

Í dag höfðum við svo stuttan tíma. Það er svo erfitt að komast á milli þótt þetta sé ekki nema hálftíma ferð venjulega. Svo þegar útgöngubannið er brostið á er maður fleiri klukkutíma að koma sér aftur inn i borgina.“

Eftir að Elín og maður hennar sáu að fullreynt var að fá einhverja úrlausn mála á flugvellinum í gær fóru þau aftur inn í borgina til að komast á hótel. Ferðalagið tók þau einn og hálfan tíma sem venjulega tekur um hálftíma. 

„Lögreglan er rétt að byrja að fara aftur út á göturnar, hún sást ekkert á ferli síðustu tvo sólarhringana,“ sagði Elín. Hún sagði að almennir borgara hafi sjálfir reynt að gæta laga og réttar.

Elín sagði að allt væri í góðu lagi á hótelinu þar sem þau dvelja. Hún sagði að mikill skortur á mat og öðru hafi verið á flugvellinum. „Það var skelfilegt ástand þar í gær. Það var búið að hreinsa úr hillunum þar sem var hægt að fá sér eitthvað. Allt búið um miðjan dag.“

Hún sagði að þótt allt sé lokað í borginni, svona opinberlega, þá sé auðvelt að verða sér úti um ýmsar nauðsynjar. „Það er allt fullt af litlum mörkuðum og búðum og það eru allir að læða sér inn á svoleiðis staði,“ sagði Elín.

Tveir aðrir Íslendingar, karl og kona, voru á hótelinu sem þau Elín og Gerd dvöldu á upphaflega.  Þau ætluðu að fara til Jemen í gærkvöldi og Elín taldi að þau hafi komist leiðar sinnar og hafði ekki heyrt annað. 

Gríðarlegur mannfjöldi mótmælir nú útgöngubanni í Kaíró.
Gríðarlegur mannfjöldi mótmælir nú útgöngubanni í Kaíró. Reuters
Elín Viðarsdóttir, fasteignasali, er nú stödd í Kaíró í Egyptalandi.
Elín Viðarsdóttir, fasteignasali, er nú stödd í Kaíró í Egyptalandi.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert