Fyrir réttum sextíu árum fórst flugvélin Glitfaxi með tuttugu manns. Vélin var í aðflugi að Reykjavíkurflugvelli þegar hún steyptist í sjóinn. Hún var að koma frá Vestmannaeyjum.
Á miðri leið bárust flugmönnum Glitfaxa fregnir af því úr flugturni Reykjavíkurflugvallar að veðrið væri orðið „mjög vafasamt“ og að aðstæður til lendingar færu versnandi.
Eftir misheppnaða lendingartilraun flaug Glitfaxi út á Faxaflóa og undirbjó þá næstu. Skyndilega hætti Glitfaxi að svara köllum flugstjórnar og ljóst var að hann hafði hrapað.
Í umfjöllun um hvarf Glitfaxa í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að slysið skildi eftir sig stórt skarð. Áhöfn og farþegar létu eftir sig alls fjörutíu og átta börn og tvö í móðurkviði.