Krefst þess að launafólki sé sýnd virðing

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ gagnrýnir SA og LÍÚ í nýju fréttabréfi ASÍ. „ASÍ hafnar því alfarið að LÍÚ segi til um það hvenær almennt verkafólk, aðstoðarfólk á umönnunarstofnunum, iðnaðarmenn, verslunar- og skrifstofufólk, fólk í hátækniiðnaði, bifvélavirkjar eða annað launafólk semji um sínar launahækkanir.“

Gylfi segir í fréttabréfinu að Samtök atvinnulífsins (SA) hafi sett það sem skilyrði fyrir viðræðum um kaup og kjör launafólks í landinu „að ríkisstjórnin tryggi ekki einungis aðkomu útgerðarmanna að mótun fiskveiðistjórnunarkerfisins, heldur að hún komist að tiltekinni niðurstöðu um kerfið sem er LÍÚ þóknanleg. SA setur þannig tugþúsundir launamanna, sem eru með lausa kjarasamninga, til hliðar vegna ótta útvegsmannaaðalsins um eigin hag. Með þessu hefur LÍÚ í reynd tekið kjaraviðræður í landinu í gíslingu sérhagsmuna sinna.“

Gylfi segir að ASÍ vilji kjaraviðræður án þvingana. „ASÍ vill að launafólki sé sýnd virðing en ekki skætingur“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert