Óheppilegt að skipa fulltrúa

Stjórnlagaþingsfulltrúar
Stjórnlagaþingsfulltrúar mbl.is/Eggert

„Ég fæ ekki séð að það sé bannað samkvæmt stjórnarskrá, en mér fyndist það mjög óheppilegt, þar sem Alþingi væri að byggja á niðurstöðum kosninga sem er búið að segja að séu ógildar,“ segir Ragnhildur Helgadóttir, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, spurð um hugmyndir þess efnis að stjórnlagaþingsfulltrúar verði skipaðir af Alþingi.

Ragnhildur var gestur á fundi allsherjarnefndar Alþingis í morgun, ásamt þeim Eiríki Tómassyni, lagaprófessor við H.Í., og Róberti Spanó, forseta lagadeildar H.Í. Á fundinum var fjallað um ógildingu Hæstaréttar á kosningunni til stjórnlagaþings, og farið yfir möguleikana í stöðunni.

Ýmsar hugmyndir hafa verið viðraðar í því samhengi, þeirra á meðal að kjósa upp á nýtt, hætta einfaldlega við þingið, eða skipa þá sem kjörnir voru í hinum ógildu kosningum með lögum.

Ragnhildur segir þetta fyrst og fremst pólitískt álitmál, fremur en lögfræðilegt. „Þingmennirnir verða bara að gera það upp við sig,“ segir hún. „En mér finnst það ekki góður kostur að skipa [fulltrúana], því þá er verið að byggja á þessum kosningum sem ekki stóðust.“

Róbert Spanó segir að spurningin um hvort sú leið sé tæk að Alþingi skipi fulltrúana 25 í einhvers konar ráðgefandi nefnd sé tvíþætt: Annars  vegar lögfræðileg, en hinsvegar pólitísk. Hann geti aðeins tekið afstöðu til þess fyrrnefnda.

Róbert segir að stjórnskipulega sé líklega ekkert því til fyrirstöðu að Alþingi velji þann kost. „Það er að segja, stjórnarskráin bannar ekki þá leið, það er ekkert í stjórnarskránni sem maður sér við fyrstu sýn að útiloki þann valkost. Ég benti hisvegar á að ef rökstuðningurinn fyrir þeirri leið byggði á niðurstöðu stjórnlagaþingskosninganna, þá þyrfti að horfa til þess að Hæstiréttur hefur ógilt kosningarnar og undirliggjandi forsenda fyrir kjöri þessara einstaklinga er því brostin. Það er að segja, kjör þeirra er ótraust í ljósi þessarar niðurstöðu Hæstaréttar.“

„Hvort menn fara þessa leið er hinsvegar pólitísk ákvörðun, sem ég tek enga afstöðu til,“ segir Róbert.

Funda með fulltrúum innanríkisráðuneytis

„Það er ennþá verið að velta sér yfir þessum fortíðarvanda og hvað fór úrskeiðis, en það liggur alveg fyrir í dómi Hæstaréttar og þú deilir ekki við dómarann,“ segir Vigdís Hauksdóttir fulltrúi Framsóknarflokksins í Allsherjarnefnd.

Vigdís segist persónulega telja algjörlega ófært að skipa fulltrúana 25 í einhvers konar stjórnlaganefnd. „Það var farið í tilraun með stjórnarskrána sem nú er búið að dæma ógilda. Þá er það spurningin hvort það eigi bara að gleyma þessu og fela þinginu aftur valdið eða fara hina leiðina, að kjósa aftur. En hver ætlar að bera ábyrgð á dræmri kjörsókn í þeim kosningum?“ segir Vigdís.

Allsherjarnefnd ætlar að funda aftur um möguleikana í stöðunni og hefur
boðað fulltrúa innanríkisráðuneytisins á þann fund, sem verður að líkindum haldinn á föstudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert