Þótt enn hafi ekki tekist að upplýsa hver eða hverjir komu tölvu fyrir í húsakynnum Alþingis laust fyrir áramótin í fyrra er málinu ekki lokið af hálfu lögreglu.
Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins var tölvan sömu gerðar og tölva sem lögreglan lagði hald á í febrúar í fyrra, þegar hún handtók 17 ára gamlan pilt, sem hafði stolið gögnum úr tölvu lögmanns þekktra einstaklinga á borð við Karl Wernersson og Eið Smára Guðjohnsen.
Pilturinn tengist bæði DV og WikiLeaks og starfar nú, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins, hjá WikiLeaks í London.
Í umfujöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag segir, að við yfirheyrslur lögreglu, hafi drengurinn reynst ósamvinnuþýður.
Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins hefur Ingi Freyr Vilhjálmsson, blaðamaður DV, sem skrifað hefur margar greinar og fréttir, sem taldar eru byggðar á hinum stolnu gögnum, réttarstöðu grunaðs manns, því vitni hafa borið að hann hafi fengið unga piltinn til þess að stela umræddum gögnum fyrir sig, gegn þóknun.