Forsætisráðherra og fulltrúar þingflokka á Alþingi settust nú síðdegis á fund þar sem fjalla átti um viðbrögð við þeirri ákvörðun Hæstaréttar, að ógilda kosningar til stjórnlagaþings. Sjálfstæðisflokkurinn vill að Alþingi hefjist nú þegar handa við endurskoðun stjórnarskrárinnar.
Í yfirlýsingu frá Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, segir flokkurinn sé tilbúinn í umræður um auðlindaákvæði, þjóðaratkvæðagreiðslur, forsetaembættið, dómstólana og önnur atriði sem þarfnast skýringar og endurskoðunar.
„Staða málsins er því sú að ímynduð andstaða Sjálfstæðisflokksins við endurskoðun og umbætur er helsta réttlæting forsætisráðherra fyrir því að halda hugmyndinni um stjórnlagaþing til streitu," segir í yfirlýsingu Bjarna.
Margir þingmenn stjórnarflokkanna hafa hvatt til þess að kosið verði til stjórnlagaþings að nýju.